
Við vinnum að gerð nýrrar vefsíðu um Njálurefilinn og sögusýningu.
16. apríl 2025 – Undirbúningur stendur yfir að sýningu á Njálureflinum og gerð sögusýningar í um 400fm húsnæði á Hvolsvelli. Sérstaða svæðisins og helstu kennileiti úr Njálssögu verða hluti af sýningunni og aðgengilegar stafrænar tæknilausnir notaðar til miðlunar þeirra.
Lögð verður áhersla á skemmtilega framsetningu sem höfðar til almennings án þess að slá af gæðum og fræðilegri þekkingu.
Njálurefillinn er Brennu-Njálssaga í myndasöguformi. Hann er 90 metra langur hördúkur með ísaumuðum myndum og texta sem byggir á Njálssögu eftir teikningum Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur. Gamlar íslenskar handverkshefðir sem eru þekktar allt frá víkingaöld voru hafðar í heiðri við gerð refilsins. Það voru Christina M. Bengtsson og Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir sem áttu hugmyndina og hafa séð um framkvæmdina en auk þeirra stóð þéttur hópur kvenna á Hvolsvelli að gerð refilisins. Hópurinn bauð gestum að taka þátt undir handleiðslu þeirra og skiptu þátttakendur þúsundum víðsvegar að úr heiminum. Saumurinn tók 7 ár og 7 mánuði og lauk haustið 2020.
Ferðarefill
Konurnar á bak við refilinn létu þó ekki þar við sitja og saumuðu styttri útdrátt hans eftir teikningum Kristínar Rögnu, s.k. ferðarefil sem er tæpir 5 metrar á lengd. Trygg vinkona refilstofuhópsins, Claudia Pétursson hefur skipulagt kynningu á ferðareflinum og öllu verkefninu víðs vegar um Bandaríkin og Kanada, sjá nánari upplýsingar um helstu viðburði á Facebook og Instagram síðum Njálurefilsins.